Sænskur áfrýjunardómstóll dæmdi í dag að starfsmenn sundlaugar í Gautaborg hafi mismunað tveimur mæðrum sem eru íslamtrúar, þegar sundlaugaverðir kröfðust þess að þær tækju niður höfuðslæður og fatnað sem hyldi líkama þeirra. Var borgaryfirvöldum í Gautaborg gert að greiða mæðrunum 20 þúsund sænskar krónur, rúmar 202 þúsund íslenskar krónur, í skaðabætur.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að dómarar telji að með þessu hafi konunum verið mismunað þegar þeim var gert að fækka fötum. Með þessu snéri dómstóllinn ákvörðun undirréttar frá því í mars á síðasta ári.
Konurnar, Houda Morabet og Hayal Eroglu, voru ekki saman í sundlauginni með börnum sínum í apríl 2004 en hvorug þeirra fór ofan í sundlaugina. Báðar voru þær með slæður, í síðerma blússum og síðbuxum þar sem trú þeirra bannar þeim að sýna þessa líkamshluta á almannafæri.
Sundlaugaverðirnir staðfestu fyrir dómi að það væri ekki tilgreint í reglum sundlaugarinnar að bannað væri að vera með höfuðslæðu á sundlaugasvæðinu né heldur að fólk þyrfti að vera í sundfatnaði ef það ætlaði ekki ofan í sundlaugina. Þeir töldu hins vegar að fatnaðurinn hefði komið í veg fyrir að mæðurnar gætu bjargað börnum sínum upp úr sundlauginni ef hættu bæri að höndum.