Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, hefur hótað því að kanadískir hermenn verði sendir heim frá Afganistan ef aðrar þjóðir sendi ekki 1000 hermenn til hættulegra svæða í landinu.
Harper segir að Kanadamenn muni ekki halda áfram að sætta sig við að kanadískir hermenn falli við störf á hættulegum stöðum ef önnur lönd taki ekki á sig meiri ábyrgð.
2.500 kanadískir hermenn eru nú í Kandahar-héraði í Afganistan, sem er eitt það hættulegasta í landinu. Tæplega 80 kanadískir hermenn hafa látið lífið í héraðinu og hefur minnihlutastjórn Harpers verið gagnrýnd vegna þess.
Kanadíski herinn hefur skuldbundið sig til að starfa í Afganistan til ársins 2009, og lætur Harper að því liggja að sá samningur verði ekki framlengdur ef ekkert verði að gert til að fjölga í fjölþjóðaliðinu í héraðinu.