Ástralskir frumbyggjar beðnir afsökunar

Frumbyggjabörn í Ástralíu.
Frumbyggjabörn í Ástralíu. Reuters

Ástralska ríkisstjórnin hefur tilkynnt að hún muni gefa út sína fyrstu formlegu afsökunarbeiðni til frumbyggja í landinu þegar þing kemur saman á ný í næsta mánuði.

Jenny Macklin, ráðherra sem fer með málefni frumbyggja í Ástralíu, segir að afsökunarbeiðnin verði það fyrsta sem þingið tekur fyrir þegar það kemur saman þann 13. febrúar nk.

Afsökunarbeiðninni verður beint að ,,stolnu kynslóðinni" svokölluðu, börnum frumbyggja sem tekin voru frá foreldrum sínum og alin upp af fjölskyldum hvítra.

Macklin hefur sagt að ákvörðunin sé eitt af fyrstu nauðsynlegu skrefunum til að vinna úr fortíðinni og stefna til framtíðar. Kevin Rudd, forsætisráðherra Ástralíu, tilkynnti eftir að hann sigraði í kosningum á síðasta ári um áætlun sína um að biðja frumbyggja afsökunar á framkomu stjórnvalda á árum áður.

Afsökunarbeiðnin hefur verið unnin í samvinnu við leiðtoga innan samfélags frumbyggja og þykir táknræn og merki um breytingar frá stefnu fyrri stjórnvalda.

Beiðnin verður borin fram fyrir hönd áströlsku ríkisstjórnarinnar, en hún felur ekki í sér nokkra sekt Ástrala nútímans.

Þúsundir frumbyggjabarna voru tekin frá foreldrum sínum á árunum 1915 til 1969 og sett í fóstur á stofnunum eða hjá hvítum fjölskyldum. Aðgerðirnar miðuðu að því að aðlaga frumbyggja að lífsháttum valdastéttarinnar.

Frumbyggjar hafa krafist milljarða dala í bætur. Stjórnvöld hafa hins vegar þvertekið fyrir það en hafa þess í stað lofað aukinni menntun og heilsugæslu fyrir samfélög frumbyggja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert