McCain sigraði í Flórída

Öldungadeildarþingmaðurinn John McCain sigraði naumlega í forvali bandarískra repúblikana í Flórída í nótt. McCain virðist nú líklegur til að verða valinn frambjóðandi repúblikana til bandarísku forsetakosninganna í haust, en líklegt þykir að Rudy Giuliani, fyrrum borgarstjóri New York hætti við framboð sitt og lýsi yfir stuðningi við McCain.

McCain fékk 36% atkvæða en helsti keppinautur hans, Mitt Romney 31%. Rudy Giuliani fékk 15% atkvæða, en hann hafði treyst á sigur í Flórída.

Mike Huckabee, sem vann forvalið í Iowa, þurfti góða niðurstöðu í Flórída til að eiga raunhæfan möguleika á að halda áfram slagnum. Hann fékk 13% atkvæða og varð í fjórða sæti. Þingmaðurinn Ron Paul varð sá fimmti, og fékk 3% atkvæða.

Hillary Clinton vann táknænan sigur í Flórída, en þar fékk hún helming atkvæða demókrata, en helsti keppinautur hennar, Barack Obama, 33%. John Edwards varð sá þriðji og fékk 15% atkvæða.

Forval demókrata í Flórída er ógilt þar sem það var haldið of snemma. Kosningin hefur því enga þýðingu og tóku frambjóðendur ekki þátt í kosningabaráttu í ríkinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert