Frönsk yfirvöld hafa ákveðið að senda 150 manna liðsauka til N'Djamena, höfuðborgar Afríkuríkisins Tsjad, en fregnir berast nú af því að her uppreisnarmanna nálgist höfuðborginna óðfluga. 2.000 manna franskt herlið er þegar í landinu en liðsaukanum er ætlað að verja franska borgar í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Óstaðfestar fréttir herma að hörð átök geisi nú í um 50 km fjarlægð frá höfuðborginni og hafa Sameinuðu þjóðirnar sent hluta starfsfólks síns þaðan.
Þá hefur komu friðargæsluliðs Evrópusambandsins til landsins verið frestað vegna átakanna og þeirrar óvissu sem þau valda. Um er að ræða 100 friðargæsluliða frá Austurríki og Írlandi en þeir eru hluti 3.700 manna friðargæsluliðs sem ætlað er að vernda flóttamenn frá Darfur héraði í Súdan.