Sjálfsvígum fjölgar innan Bandaríkjahers

Bandarískur hermaður við störf í Írak.
Bandarískur hermaður við störf í Írak. AP

Talið er að hundrað tuttugu og einn bandarískur hermaður hafi framið sjálfsvíg á síðasta ári og er það 20% aukning frá árinu 2006. Talsmenn hersins segja að fyrst og fremst megi rekja aukninguna til álags vegna stríðarekstursins í Írak og Afganistan. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

 Staðfest er hins vegar að 89 hermenn hafi framið sjálfsvíg á síðasta ári auk þess sem sterkar vísbendingar eru um að 32 til viðbótar hafi einnig tekið eigið líf. Árið 2001 voru 52 sjálfsvíg staðfest meðal bandarískra hermanna. 

34 hermannanna tóku eigið líf er þeir voru við herskyldu í Írak á síðasta ári en árið áður frömdu 27 bandarískir hermenn sjálfsvíg í landinu.Þá eru til gögn yfir 2.100 tilfelli þar sem bandarískir hermenn sköðuðu sjálfa sig en á síðasta ári voru slík tilfelli 1.500 og á árinu 2002 voru þau innan við 500.

Töluverð áhersla hefur verið lögð á það innan Bandaríkjahers á undanförnum árum að bæta geðheilbrigði hermanna og geðheilbrigðisþjónustu við þá. Col. Elspeth Ritchie, ráðgjafi Bandaríkjahers í geðlækningum, segir það hins vegar ekki duga til og að rekja megi stóran hluta sjálfsvíganna til álags vegna þátttöku í hernaði, sambandsslita, fjárhags og lögfræðivandræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert