Vetrarhörkur í Bandaríkjunum

Vetrarhörkur eru víðar en á Íslandi þessa dagana. Fjöldi fólks hefur látist í Kína í óveðri og í Bandaríkjunum eru að minnsta kosti tíu látnir í miklu vetrarveðri. Samgöngur liggja víða niðri í Bandaríkjunum, bæði á landi og í lofti, á vestur- og austurströndinni, en margar af helstu hraðbrautum í kringum Chicago og fleiri borgir eru lokaðar.

Aflýsa þurfti um 500 flugum um alþjóðaflugvöllinn  O'Hare í Chicago í gær en á fimmtudag þurfti að aflýsa um 600 flugum um flugvöllinn. Eyddu hundruð farþega nóttinni á flugvellinum í nótt.

Ástandið er svipað í New York en flugi um Newark flugvöll og La Guardia flugvöll hefur í mörgum tilvikum verið aflýst eða miklar tafir orðið vegna roks og snjókomu.

En það eru ekki bara flugfarþegar og bifreiðar sem hafa setið fastir heldur eru tvær Amtrak lestar með 400 farþega fastar í fjöllunum í norðurhluta Kaliforníu. Hafa þær setið fastar frá því síðdegis á föstudag en samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum væsir ekki um þá.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert