Hörð átök þar sem beitt er skriðdrekum og þyrlum hafa geisað í höfuðborg Afríkuríkisins Chad í dag, annan daginn í röð. Forseti landsins er innikróaður í höll sinni síðan í fyrradag og hundruð erlendra ríkisborgara hafa flúið landið.
Lík liggja á víð og dreif um götur borgarinnar, að því er SÞ greina frá.
Chad var áður frönsk nýlenda, og sagði varnarmálaráðherra Frakklands í dag að orrustan sem nú stæði um borgina myndi að líkindum ráða úrslitum um hver næði henni á sitt vald. Það eru þrír leiðtogar uppreisnarmanna sem gert hafa atlögu að borginni, þar sem stjórnarherinn heldur uppi vörnum.
Talsmaður uppreisnarsveitanna tjáði fréttamanni AFP: „Við tókum flugvöllinn ekki á okkar vald til þess að hægt yrði að flytja á brott erlenda ríkisborgara.“ Aftur á móti væri franski herinn nú farinn að leyfa stjórnarhernum að nota völlinn fyrir þyrlur sem beitt væri til árása á uppreisnarmenn.