Úrslitaleikurinn í bandaríska fótboltanum gengur undir nafninu „Superbowl,“ og hann hefst klukkan 23 í kvöld að íslenskum tíma. Þá setjast tugir milljóna Bandaríkjamanna við sjónvarpstæki sín og fylgjast með, enda nýtur ekkert sjónvarpsefni meiri vinsælda en þessi leikur.
Meira að segja frambjóðendurnir í forkosningunum vegna forsetakjörsins í nóvember ætla að gera hlé á baráttunni til að fylgjast með leiknum, en svo taka þeir upp þráðinn sem aldrei fyrr því að komandi þriðjudagur er svokallaður „Super Tuesday,“ en þá fara fram forkosningar í 24 ríkjum, og ekki ólíklegt að úr því fáist skorið hverjir verða forsetaframbjóðendur.
Að minnsta kosti er allt útlit fyrir að John McCain muni tryggja sér útnefningu Repúblíkanaflokksins, en tvísýnna er um úrslit hjá demókrötum.