Karl Rove, sem lengi var helsti ráðgjafi Georges W. Bush, Bandaríkjaforseta, tekur á morgun við nýju starfi sem pólitískur fréttaskýrandi hjá bandarísku sjónvarpsfréttastöðinni Fox. Mun Rove byrja á því að fjalla um forkosningarnar, sem fara fram hjá demókrötum og repúblikönum á morgun.
Rove var einkum þakkað það, að Bush vann forsetakosningarnar árið 2000. Hann gegndi í kjölfarið ýmsum embættum í Hvíta húsinu en hætti þar störfum á síðasta ári. Hann hefur síðan m.a. skrifað greinar í blaðið The Wall Street Journal, sem Rupert Murdock, eigandi Fox, hefur nú einnig eignast.
Rove var mjög umdeildur í Washington og tengdist ýmsum málum, sem gerðu stjórn Bush erfitt fyrir.