Íranar segjast hafa skotið flugskeyti út í geiminn frá nýrri geimvísindastöð sinni í dag. Flauginni var skotið frá geimvísindastöðinni skömmu eftir Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti vígði hana við formlega athöfn. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Yfirvöld í landinu segja að skotið hafi verið þáttur í undirbúningi þeirra að því að senda gervitungl út í geiminn. Erlendir vísindamenn hafa hins vegar lýst efasemdum um að flaugin hafi í raun farið út í geiminn en almennt er litið svo á að geimurinn hefjist í 100 km fjarlægð frá jörðu.
Íranar tilkynntu fyrir ári síðan að þeir hefðu skotið gervitungli á braut umhverfis jörðu en síðar kom í ljós að það hafði aldrei komist út fyrir gufuhvolf jarðar.