Spennandi forkosningar

Mikil spenna ríkir í Bandaríkjunum vegna forkosninga, sem fara fram í 24 ríkjum á morgun. Skoðanakannanir benda til þess að John McCain gæti nánast tryggt sér útnefningu sem forsetaefni repúblikana á morgun en staðan er mun óljósari hjá demókrötum þar sem Barach Obama og Hillary Clinton takast á.

Clinton, sem nánast var orðin raddlaus, þurrkaði tár af hvarmi þegar hún heimsótti Yale háskóla í Connecticut þar sem hún stundaði nám á sínum tíma.

„Ég sagðist ætla að reya að tárast ekki en það gengur ekki vel," sagði Clinton  þegar hún ávarpaði nemendur skólans. 

Obama var nú síðdegis í New Jersey, þar sem Clinton nýtur mikils stuðnings. Kvikmyndaleikarinn Robert De Niro kynnti Obama á kosningafundi. Edward Kennedy, öldungadeildarþingmaður, kom einnig fram á fundi Obama.

Útlit er fyrir harða baráttu þeirra Clinton og Obama í Kalíforníu þar sem margir kjörmenn eru í boði. Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að Obama njóti nú ívið meira fylgis þar en Clinton.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert