Svíar ákærðir fyrir lyfjasölu á netinu

Sænskur saksóknari hefur ákært sjö karlmenn fyrir að selja lyfseðilsskyld lyf á netinu, aðallega til viðskiptavina í Bandaríkjunum. Eru sakborningarnir taldi hafa haft jafnvirði um 300 milljóna íslenskra króna upp úr því að selja lyf á borð við morfín og rohypnol með þessum hætti.

Cathrine Rudström, saksóknari tölvubrota, segir að Svíarnir sjö, sem eru á aldrinum 37-50 ára, hafi sent lyf til þúsunda viðskiptavina en um 80% þeirra búa í Bandaríkjunum. 

Mennirnir hýstu vefsíður sínar í Austurríki og Hollandi og notuðu bankareikninga í Sviss, Þýskalandi og Lettlandi. Málið komst upp þegar gerð var húsleit hjá lyfjasala í Búlgaríu en þar fundust gögn sem leiddu lögregluna á sporið í Svíþjóð.  Svíarnir keyptu lyfin einnig frá Hong Kong, Suður-Afríku, Indlandi og Spáni.

Þeir eiga yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi ef þeir verða fundnir sekir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert