CIA beitti vatnspyntingum

Michael Hayden, forstjóri CIA
Michael Hayden, forstjóri CIA Reuters

Michael Hayden, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, hefur viðurkennt að  stofnunin hafi beitt vatnspyntingum til að fá fanga til að veita upplýsingar.

Hayden sagði fyrir þingnefnd í dag að aðferðin hefði þó aðeins verið notuð á þremur mönnum, og ekkert undanfarin fimm ár.

Við yfirheyrslu fyrir nefndinni sagði Hayden að aðferðin, þar sem fangar fá sterka drukknunartilfinningu, hefði verið notuð við yfirheyrslur á þremur hátt settum meðlimum hryðjuverkasamtakanna al-Qaída, þeim Khalid Sheikh Mohammed, Abu Zubaydah og Abd al-Rahim al-Nashiri.

Hayden sagði að óttast hafi verið að hryðjuverkaárásir væru yfirvofandi, og því hafi aðferðunum verið beitt.

Mannréttindasamtök hafa skilgreint aðferðina sem pyntingar, en bandarísk stjórnvöld gera það ekki. Bandaríska þingið hefur rætt um að banna notkun vatnspyntinga, en George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hefur hótað að beita neitunarvaldi verði af því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert