Umboðsmaður jafnréttismála í Noregi segir að reglur um fæðingarorlof mismuni feðrum þar í landi. Hefur Nettavisen eftir Ingeborg Grimsmo að ekki standist jafnréttislög að réttur nýbakaðs föður á fæðingaorlofi fari eftir því hversu mikið móðirin hafi þénað í aðdraganda fæðingarinnar.
„Við höfum lengi bent á að hér sé pottur brotinn og að málum mætti koma í betra horf. Við viljum að hlutdeild feðra í orlofinu verði alveg óháð tekjum og atvinnustöðu móður. Umboðsmaður jafnréttismála styður jafnframt að fæðingarorlofið sé þrískipt, eins og á Íslandi,“ segir Grimsmo.
Manuela Ramin-Osmundsen, ráðherra barna- og jafnréttismála, tekur undir með að í þessu atriði sé staða karla verri en kvenna. Segir hún endurskoðun laga um fæðingarorlof munu taka mið af því. aij