Obama með forskot í Kaliforníu

Samkvæmt könnun sem fréttastofan Reuters hefur látið gera er öldungadeildarþingmaðurinn Barack Obama með 13% forskot á Hillary Clinton í forkosningunni í Kaliforníu fyrir bandarísku forsetakosningarnar.

Niðurstaða forkosninganna þar skiptir afar miklu máli þar sem í ríkinu er fimmtungur þeirra fulltrúa sem velja frambjóðanda flokksins.

Þá benda kannanir til þess að repúblikaninn John McCain sé afar nálægt því að tryggja sér tilnefningu sem framjóðandi repúblikana í forsetakosningunum í haust.

Forkosningar fara fram í 24 ríkjum í dag, nærri helmingi Bandaríkjanna, og eru þar á meðal stór ríki á borð við New York, sem er þriðja fjölmennasta ríki Bandaríkjanna og Kaliforníu, sem er það fjölmennasta.

Kjörstöðum lokar í Georgíu klukkan tólf á miðnætti að íslenskum tíma og klukkan fjögur í nótt í Kaliforníu. Tölur eru birtar um það leyti sem kjörstöðum lokar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert