„Ofur-þriðjudagurinn" er í Bandaríkjunum í dag, líklega mikilvægasti dagurinn í forleiknum að bandarísku forsetakosningunum sem fram fara í haust. Forval fer fram í 24 ríkjum í dag, þar á meðal stórum ríkjum á borð við New York og Kaliforníu. Góðar líkur eru á að í dag ráðist hver verði frambjóðandi repúblikana, en mikil spenna ríkir í forvali demókrata.
Kjörstaðir loka í Georgíu á miðnætti að íslenskum tíma og ættu fyrstu tölur að berast skömmu eftir það. Kjörstaðir loka svo hver af öðrum en í Kaliforníu, sem er fjölmennasta ríki landsins, loka kjörstaðir klukkan fjögur í fyrramálið. Skömmu eftir það ættu niðurstöður að liggja fyrir.
Öldungadeildarþingmaðurinn John McCain þykir líklegur til að hreppa tilnefningu repúblikana sem forsetaframbjóðandi flokksins. Keppinauti hans, Mitt Romney, er hins vegar spáð sigri í Kaliforníu og gæti það orðið honum til bjargar.
Barack Obama hefur mjög sótt á samkvæmt könnunum og er fylgi hans og Hillary Clinton nær hnífjafnt. Mikil spenna ríkir því um forvalið og allsendis óvíst að línurnar verði skýrari eftir forkosningarnar í dag.