Starfsmenn Rauða Krossins í Ndjamana, höfuðborg Tsjad, vinna að því að hreinsa upp lík af götum borgarinnar eftir að uppreisnarmenn voru raktir á brott eftir blóðug átök um helgina. Her landsins hefur náð yfirráðum og franskir hermenn vakta einnig borgina.
Varnarmálaráðherra Frakklands, Herve Morin, kom til borgarinnar í morgun til þess að ræða við forseta landsins Idriss Deby.
Samkvæmt frétt BBC segir að með aðstoð franska hersins muni yfirvöld leita uppi 200 pallbíla uppreisnarmanna sem stóðu að bardögum í borginni um helgina. Einnig segir að þyrlur séu tilbúnar til þess að hefja árás á dvalarstaði uppreisnarhópa.
Hjálparstarfsmenn telja að um þúsund manns hafi særst í átökunum. Yfir 20.000 flóttamenn hafa reynt að flýja til Kamerún og 3000 til Nígeríu.
Leiðtogi UFDD, hóps uppreisnarmanna, sagðist tilbúinn til þess að semja um vopnahlé í staðinn fyrir samningaviðræður við ríkisstjórnina en því var hafnað af hálfu stjórnarinnar.