Mjótt er á mununum á milli öldungadeildarþingmannanna Hillary Clinton og Barack Obama, sem sækjast eftir að verða forsetaefni bandarískra demókrata í forsetakosningunum í haust, eftir kosningadaginn mikla í gær. Segja sérfræðingar líkur á að barátta þeirra eigi eftir að harðna og að það skapi ákveðna hættu á klofningi flokksins. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Obama hefur fram til þessa borið sigur út býtum í forkosningum í tólf ríkjum en Clinton hefur sigrað í átta ríkjum. Þau eru hins vegar fjölmennari en þau ríki sem Obama hefur sigrað og því hefur hún hlotið fleiri kjörmenn. Clinton hefur nú tryggt sér 740 kjörmenn en Obama hefur tryggt sér 659 kjörmenn en til að verða forsetaefni þarf frambjóðandi 2.025 kjörmenn.
Peter Kurrild-Klitgaard, prófessor í stjórnmálafræði við Kaupmannahafnarháskóla, segist líta svo á að Clinton sé sigurvegari gærdagsins. „Ég tel að Clinton njóti meira fylgis en það er ekki jafn ljóst og áður. Ég tel að hún hafi unnið Ofur- þriðjudaginn en það svo naumlega að það skýrist ekki fyrr en síðar í dag hvort um raunverulegan sigur er að ræða,” segir hann. Þá segir hann óvíst að niðurstaða liggi fyrir fyrr en í júní og bendir á að bæði eigi eftir að kjósa í Texas og Ohio.
„Í versta hugsanlega tilfelli ræðst þetta ekki fyrr en kjörmennirnir koma saman í ágúst. Þetta getur því orðið harðneskjulegt og ljótt. Það gæti leitt til þess að klofningur komi upp innan flokksins og þess að hvorugur frambjóðendanna geti hafist handa við að skipuleggja kosningabaráttu sína sem forsetaframbjóðandi. Slíkt gæti veitt repúblíkönum margra mánaða forskot.”
Carl Pedersen, prófessor við Copenhagen Business School, segir það einnig geta stuðlað að klofningi innan flokksins að hugsanlegt sé að áhrifamenn innan hans, sem fram til þessa hafi stutt Clinton skipti um skoðun. „Í upphafi studdu þeir hana af því þeir töldu ekki að Obama ætti neina möguleika. Það hefur hins vegar margt gerst frá því kosið var í Iowa fyrir mánuði. Það er viðurkennd staðreynd að möguleikar repúblíkana á sigri eru mestir verði Hillary Clinton frambjóðandi demókrata. Því er hugsanlegt að æðstu menn flokksins skipti um lið og lýsi stuðningi við Obama,” segir hann.