Bandaríska sjónvarpsstöðin MSNBC segir frá því að í herbúðum Mitt Romney standi nú til að funda um niðurstöður forkosninganna fyrir bandarísku forsetakosningarnar. Túlkar sjónvarpsstöðin tíðindin sem svo að Romney íhugi nú að hætta við framboð sitt.
Romney, sem eytt hefur ógrynni fjár í kosningabaráttu sína, treysti á sigur í forkosningunum í Kaliforníu og Missouri, en þar bentu kannanir til þess að hann ætti möguleika á sigri.
Það gekk ekki eftir því öldungadeildarþingmaðurinn John McCain sigraði í báðum ríkjum. Romney sigraði í Utah, Norður Dakóta, Massachussetts, Minesota, Montana og Colorado, ríkjum sem ekki hafa sömu ítök og stór ríki á borð við Kaliforníu.
John McCain hefur tryggt sér 487 fulltrúa af þeim 1.191 sem þarf til að ná tilnefningu sem forsetaframbjóðandi repúblikana. Romney hefur hins vegar aðeins tryggt sér 176 fulltrúa.
Kosningabaráttan hefur reynst Romney mjög dýr, dagblaðið Washington Post reiknaði í nótt út að hver fulltrúi sem Romney hefur tryggt sér hafi kostað hann 1,16 milljónir dala, eða rúmar 75 milljónir króna. Með því áframhaldi myndi sigurinn kosta Romney 1,3 milljarð dala, eða 85 milljarða króna.