John McCain er á góðri leið með að tryggja sér útnefningu sem forsetaefni repúblikana í forkosningunum í Bandaríkjunum, en skv. útgönguspám hefur hann unnið góða sigra í nokkrum stórum ríkjum.
Ljóst þykir hins vegar, að McCain hefur ekki náð fótfestu meðal hinna íhaldssömustu í röðum stuðningsmanna Repúblikanaflokksins og fékk baptistapresturinn Mike Huckabee meiri stuðning í nótt en búist var við. Hann vann sigur í fimm ríkjum.
Í demókrataflokknum er ljóst, að baráttu Hillary Clinton og Barack Obama er langt frá því að vera lokið. Clinton virðist hafa sigrað í Kaliforníu í forvali demókrata að því er fram kemur í bandarískum fjölmiðlum en þar voru flestir kjörmenn í boði. Hún sigraði einnig auðveldlega í New York en þetta eru tvö fjölmennustu ríkin.
Barack Obama, keppinauti hennar, vegnaði þó einnig vel og ljóst þykir að stuðningur við hann í röðum hvítra kjósenda fer vaxandi. Þá nýtur han yfirburða stuðnings í röðum blökkumanna. Hann sigraði m.a. með yfirburðum í Georgíu og heimaríki sínu, Illinois.
Alls var kosið í 24 ríkjum og er þetta því mikilvægasta dagur í forvali flokkanna, en kosið er um 42% allra kjörmannanna sem frambjóðendurnir þurfa á að halda svo þeir fái útnefningu flokks síns á flokksþingum síðar á árinu.
McCain hefur sigrað í New York, New Jersey, Arizona, Connecticut og Delaware, þar sem sigurvegarinn hlýtur alla kjörmennina. McCain er einnig sagður hafa sigrað í Kaliforníu, Illinois og Oklahoma.
Í forvali demókrata hefur Hillary Clinton unnið sigra í 8 ríkjum, þ.e. Oklahoma, Arkansas, Tennessee, New York, Massachusetts, New Jersey, Arizona og Kaliforníu. Sigurinn í Massachusetts var einkum sætur en það er heimaríki Edwards Kennedys, öldungadeildarþingmanns, sem hefur lýst yfir stuðningi við Obama.
Obama sigraði í 13 ríkjum, þ.e. Georgíu, Illinois, Delaware, Alabama, Utah, Norður-Dakota, Kansas, Connecticut, Minnesota og Kólorado, Idaho, Missouri og Alaska.
Samkvæmt fréttavef BBC hefur Clinton því fengið 363 kjörmenn kjörna og Obama 328 kjörmenn.