Bandarískar sjónvarpsstöðvar og fréttastofur spáðu því að Barack Obama hefði unnið forkosningar Demókrataflokksins í Georgíu í dag en óljóst er hver vann í ríkinu í forkosningum Repúblikanaflokksins. Kosið var í 24 ríkjum í dag en kjörstöðum var lokað í Georgíu á miðnætti að íslenskum tíma.
Gert er ráð fyrir að Obama fái meirihlutann af þeim 87 kjörmönnum, sem til boða standa í Georgíu. Endanleg úrslit í kosningunum í dag verða ekki ljós fyrr en seint í nótt.
Þá fór Mike Huckabee með sigur af hólmi í forkosningum repúblikana í Vestur-Virginíu þar sem hann fékk 51% atkvæða en Mitt Romney 47%. Þessi úrslit voru þó túlkuð sem jákvæð fyrir John McCain, sem talið er að vinni sigra í mörgum af ríkjunum í nótt.