Sænska ríkið mennti múslíma

 Ráðherra í sænsku ríkisstjórninni vill koma á fót skólum til að mennta ímama, trúarleiðtoga múslíma. Tilganginn segir hann vera að berjast gegn því að róttæklingar noti trúna sem skjól. Samtök múslíma fagna áformunum, en vilja tryggja hugmyndafræðilegt sjálfstæði skólanna.

Hugmyndirnar koma frá Lars Leijonborg, sem er ráðherra æðri menntunar og rannsókna. Vill hann að ríkið styðji sænska múslíma til að mennta fólk innan sinna raða, eða hjálpi aðfluttum ímömum að kynnast sænsku samfélagi og læra tungumálið.

Hefur Leijonborg áhyggjur af því að öfgaöfl geti misnotað núverandi ástand, þar sem trúarleiðtogar eru flestir aðfluttir.

„Það er talið að sádiarabískir öfgamenn bjóðist til að leggja til ímama endurgjaldslaust, og peningaskortur þýðir að hófsamir múslímar sem vilja opna mosku hafa varla um neitt annað að velja. Þannig stuðlum við með opnum augum að því að róttækni skjóti hér rótum, sem er afar, afar óheppilegt,“ segir Leijonborg.

Hugmyndir Leijonborgs eiga upp á pallborðið hjá meðlimum ýmissa annarra flokka. Sósíaldemókratinn Luciano Astudillo hefur lengi hvatt til þess að sænska ríkið fylgi fordæmi Dana og Breta og styðji menntun ímama heima fyrir.

„Það er fyrst þegar leiðtogar íslamska samfélagsins eiga náttúrulegt innlegg í sænskt samfélag sem við getum brotið niður þá tilfinningu sem margir múslímar finna fyrir – að vera utangarðs og einangraðir,“ segir Astudillo.

Mahmoud Khalfi, sem er ímam við moskuna í Stokkhólmi, fagnar því að ríkið vilji veita fé til að styðja samfélag múslíma í Svíþjóð. Hann varar þó við því að afskipti ríkisins nái of langt inn í trúarbrögðin sjálf.

„Þetta er spurning um trúverðugleika. Hver myndi sig sætta sig við ímam sem hefur verið kennt af ríkinu? Jafnvel í íslömskum ríkjum er það mjög viðkvæm spurning hvort ríkið eigi að blanda sér í spurningar sem snerta trúmál sérstaklega,“ segir Khalfi við Svenska Dagbladet.

„Við styðjum að ríkið löggildi menntun ímama, en viljum sjálfir vera með og útfæra hana,“ segir Omar Mustafa, talsmaður ungra múslíma í Svíþjóð, við Dagens Nyheter. „Það er ekki hlutverk ríkisins að skilgreina hvað er róttækt íslam.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert