Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að framtíð NATO sé í hættu vegna þess ágreinings sem nú ríki varðandi Afganistan. Hann segir jafnframt að bandalagið geti klofnað.
Fram kemur á fréttavef BBC að Gates að baráttuvilji hermananna í Afganistan muni gufa upp nema fleiri ríki muni leggja sitt af mörkum til að berjast gegn uppreisnarmönnum í landinu.
Aðeins bandarískar, breskar, kanadískar og hollenskar hersveitir eiga í átökum við uppreisnarmenn í hinum róstusama suðurhluta Afganistans.
Gates lét ummæli sín falla er þýsk stjórnvöld greindu frá því að þau muni senda 200 hermenn til norðurhluta landsins.
Bandaríkjastjórn sendi bréf til Evrópuríkja í síðustu viku þar sem þrýst er á að þau sendi hermenn til suðurhluta Afganistans.
Nýverið samþykkti Gates treglega að senda 3.200 bandaríska hermenn til Afganistans. Hann hafði áður gefið í skyn að önnur ríki myndu senda hermennina til landsins.
Öll 26 aðildarríki NATO hafa sent hermenn til landsins. Margir bandamanna Bandaríkjanna, þ.á.m. Þýskaland, Frakkland, Spánn, Tyrkland og Ítalía, hafa neitað að senda marga hermenn til suðurhluta Afganistans.