John McCain hefur kallað eftir stuðningi íhaldsmanna í Repúblikanaflokknum eftir að Mitt Romney dró forsetaframboð sitt til baka. Fréttaskýrendur segja að með þessu sé ljóst að fátt geti staðið í vegi fyrir að McCain hljóti útnefninu repúblikana.
McCain hefur þakkað Romney fyrir keppnina og boðið stuðningsmönnum hans að styðja sig, að því er segir á fréttavef breska ríkisútvarpsins.
Romney hefur hins vegar ekki lýst yfir stuðningi við McCain, en segir að repúblikanar verði að fylkja sér á bak við einn frambjóðanda. Romney tók ákvörðunina þegar ljóst var að bilið milli hans og McCain var of mikið á „ofur þriðjudaginn“, þegar kosið var í 24 ríkjum.
Romney sagði að það hefði verið mjög erfið ákvörðun að draga framboðið til baka. Hann sagði jafnframt að forkosningarnar myndu draga baráttuna á langinn og hjálpa demókrötum. Hann sagði nauðsynlegt að einn frambjóðandi myndi hefja undirbúning fyrir sjálfar forsetakosningarnar á landsvísu.