Fjárframlögum í kosningasjóð Hillary Clinton hefur fjölgað nokkuð eftir að hún greindi frá því fyrr í vikunni að hún hafi lánað kosningasjóði sínum fimm milljónir Bandaríkjadollara. Þá var greint frá því í bandarískum fjölmiðlum að nánustu samstarfsmenn hennar vinni nú kauplaust við kosningabaráttu hennar vegna fjárskorts sjóðsins.
Þrjár milljónir hafa safnast í kosningasjóð Clinton frá því á þriðjudag en á sama tíma hafa sjö milljónir dollara safnast í kosningasjóð Barack Obama, elsta keppinautar hennar. Þá söfnuðust 32 milljónir dollara í kosningasjóð hans í síðasta mánuði.
Clinton freistar þess nú að fá Obama til að samþykkja að mæta henni í vikulegum kappræðum en Obama hefur lýst því yfir að hann vilji einungis taka þátt í einum kappræðum.„Það er of mikið í húfi og þau viðfangsefni sem þjóðin stendur frammi fyrir eru of mikilvæg til að kjósendum sé meinað um tækifæri til að sjá frambjóðendurna í návígi,” segir Patti Solis Doyle, kosningastjóri Clinton, í bréfi til David Plouffe, kosningastjóra Obama.
Fréttaskýrendur eru sammála um að Clinton komi betur úr út kappræðum en að Obama nái betur til fólks úr ræðustóli.
Næstu kosningar á milli frambjóðendanna fara fram í Louisiana á laugardag en ekki er talið að til stórkostlegra tíðinda dragi í kosningabaráttu þeirra fyrr en kosið verður á milli þeirra í Ohio og Texas þann 4. mars.