Hæstiréttur í Nebraska í Bandaríkjunum hefur úrskurðað að aftaka í rafmagnsstól stangist á við ákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar sem bannar grimmilegar og óvenjulegar refsingar. Nebraska var eina ríkið þar sem rafmagnsstóllinn var eina aðferðin sem notuð var við að taka dauðamenn af lífi.
Dauðarefsingu verður áfram beitt í Nebraska, en í kjölfar úrskurðar réttarins verður ekki heimilt að nota rafmagnsstólinn framar. Þarf nú ríkisþingið að samþykkja aðra aðferð við fullnustu dauðadóma.
Í úrskurði réttarins segir að vísbendingar séu um að aftaka með rafmagni valdi „miklum kvölum og skelfilegum þjáningum.“ Einn hæstaréttardómaranna sagði að ekki megi pynta fanga til dauða, burtséð frá því hvaða glæpi þeir hafi framið.