Camden markaður lokaður

Lundúnalögreglan hefur beðið fólk um að halda sig frá Camden Town í Norður-London eftir eldsvoðann á hinu vinsæla markaðssvæði. Að sögn sjónarvotta er slökkviliðið enn á staðnum.

Ekki er ljóst hver eldsupptökin voru en vöruhús og markaðshúsnæði er ónýtt eftir eldsvoðann sem kom upp um klukkan sjö í gærkvöldi. Á þessu svæði eru margir pöbbar og skemmtistaðir og þykir mikil mildi að enginn skuli hafa slasast.

Borgaryfirvöld opnuðu aðstöðu í nærliggjandi íþróttahöll fyrir fólk sem þurfti að yfirgefa heimili sín en samkvæmt fréttavef BBC voru fáir sem þáðu þá þjónustu og var um 20 manns komið fyrir á hótelum í hverfinu.

Fréttavefur Morgunblaðsins ræddi við Margaret Quinn, kráareiganda sem rekur krá og býr skammt frá markaðnum og sagði hún að mikið hefði gengið á í gærkvöldi og að lögreglan hefði lokað stóru svæði umhverfis markaðinn og að enn væru jarðlestastöðvar í hverfinu lokaðar og að nú væru menn að störfum við að meta tjónið.

Einn hefðbundinn enskur pöbb eyðilagðist í eldsvoðanum, Hawley Arms en hann er skammt frá markaðnum, hann er í húsaröð sem tengist hluta af markaðnum undir járnbrautabrú en búið er að stöðva lestarumferð um brúnna.

Lögreglan reiknar með að götum verði lokað næstu tvo til þrjá dagana vegna brunans og rannsóknarinnar á honum en margir litlir matsölustaðir voru á markaðnum og er einnig talin hætta á að gaskútar sem þar kunna að vera springi.


Markaðurinn brann í gær.
Markaðurinn brann í gær. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert