Hillary Rodham Clinton hafnaði því í dag að kosningabarátta sín gengi illa, þrátt fyrir að hafa beðið lægri hlut fyrir Barak Obama í fimm forkosningum um helgina. Kosningar fara fram í þrem ríkjum á morgun. Útlit er fyrir sigur Obamas í þeim öllum.
Clinton sagði í dag að hún væri ennþá með fleiri kjörmenn en Obama, og nyti meiri stuðnings en hann á landsvísu.
Á morgun verður kosið í Maryland, Virginíu og Washington-borg, og í næstu viku verður kosið í Wisconsin og á Hawaii. Útlit er fyrir sigur Obamas í þessum kosningum, en Clinton væntir sigurs í Texas og Ohio, þar sem kosið verður í byrjun mars og mikill fjöldi fulltrúa er í húfi.
Samkvæmt síðustu útreikningum AP hefur Clinton tryggt sér 1.136 fulltrúa, en Obama 1.108. Alls þarf 2.025 til að hljóta útnefningu sem forsetaefni.