Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu, er nú í felum vegna frétta af því að Ísraelsher sé að undirbúa tilræði gegn herskáum leiðtogum Hamas-samtakanna. Þetta kemur fram á Ha’aretz.
Samkvæmt heimildum arabíska blaðsins Al-Quds al-Arabi vita einungis nánustu samstarfsmenn Haniyeh hvar hann heldur sig. Heimildarmenn ísraelska blaðsins Ha’aretz segja þó ólíklegt að herinn freisti þess á þessu stigi málsins að ráða stjórnmálaleiðtoga samtakanna af dögum.
Sami al-Zuhri, talsmaður Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu, segir að samtökin muni grípa til allra tiltækra ráða til að svara fyrir sig láti herinn verða af árásum á leiðtoga samtakanna.