Bandaríska varnarmálaráðuneytið skipuleggur ákærur á hendur sex föngum í fangabúðunum við Guantanamó flóa á Kúbu. Verða þeir ákærðir fyrir aðild að árásinni á Bandaríkin þann 11. september 2001.
Fram kemur á fréttavef BBC að þetta verði í fyrsta sinn að fangar sem dvelja í fangabúðunum verða leiddir fyrir rétt í beinum tengslum við árásirnar 11. september, en þess er vænst að réttað verði yfir þeim fyrir herdómstól.
Saksóknarar munu krefjast dauðarefsingar yfir mönnunum sex. Á meðal þeirra er Khalid Sheikh Mohammed, meintur meðlimur al-Qaeda sem var handtekinn í Pakistan 2003. Hann er sagður hafa viðurkennt að hafa myrt bandaríska blaðamanninn Daniel Pearl, sem var rænt og síðar hálshöggvinn árið 2002.
Aðrir eru m.a Ramzi Binalshibh háttsettur meðlimur al-Qaeda sem var handtekinn í Pakistan 2002, og Mohammed al-Qahtani sem er talinn hafa verið einn flugræningjanna í árásunum.