Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Robert Gates, segist styðja það að hægt verði á því að senda hermenn heim frá Írak en í júlí verður búið að fækka bandarískum hermönnum um 30 þúsund í júlí. Þetta kom fram í máli Gates við blaðamenn eftir að hann átti tveggja tíma fund með yfirmanni Bandaríkjahers í Írak, David Petraeus, í Bagdad.
Er þetta í takt við það sem Petraeus sagði í viðtali við CNN í síðasta mánuði þar sem hann mælti með því að hægt yrði á því að senda bandaríska heim frá Írak, að minnsta kosti þar til hægt sé að tryggja frið í landinu með færri hermönnum. Ekki er vitað um hve langan tíma Gates og Petraeus eru að tala um.