Brenndi þjóðargersemina til kaldra kola

Lögreglan í Suður-Kóreu segist hafa handtekið 69 ára gamlan mann sem hefur viðurkennt að hafa kveikt í 600 ára gömlu varðhliði. Hliðið, sem er helsta þjóðargersemi landsins, brann til kaldra kola. Maðurinn kveikti í vegna þess að að hann var ósáttur með bótagreiðslur sem hann fékk.

Varðhliðið kallast Namdaemun (sem útleggst á íslensku sem „Suðurhliðið mikla“). Það brann til kaldra kola í gær. Málið hefur vakið mikla athygli í suður-kóreskum fjölmiðlum. Víða voru skrifaðir leiðarar þar sem atburðurinn var harmaður.

Óhætt að segja að landsmenn séu slegnir yfir atburðinum. „Það er eins og hjarta þjóðarinnar hafi verið lagt í rúst yfir nóttu,“ sagði verkmaðurinn Heo Eun sem stóð við brunarústirnar.

Maðurinn sem er grunaður um verknaðinn er sagður hafa undirbúið íkveikjuna mánuðum saman.

Að sögn lögreglu gaf maðurinn þær skýringar að hann hafi kveikt í hliðinu þar sem hann var ósáttur við vinnubrögð yfirvalda. Hann sagðist ekki hafa fengið greiddar nægilega háar bætur vegna framkvæmda sem eiga sér stað í hverfinu hans.

Maðurinn klifraði upp í varðturn hliðsins, hellti þynni á gólfið og kveikti í.

Hann hefur beðið alla landsmenn afsökunar á verknaðinum. Það er óvíst hvort þeir muni nokkurn tíma fyrirgefa honum.

Hliðið stórskemmdist í brunanum.
Hliðið stórskemmdist í brunanum. Reuters
Svona leit það út fyrir brunann. Hliðið er talið eitt …
Svona leit það út fyrir brunann. Hliðið er talið eitt af helstu þjóðargersemum Suður-Kóreu. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert