Kastró sakar McCain um lygar

John McCain á flugsafninu í Virginiu í gær en McCain …
John McCain á flugsafninu í Virginiu í gær en McCain var flugmaður í Bandaríkjaher í Víetnamstríðinu. AP

Fídel Kastró, leiðtogi Kúbu, hefur vísað á  bug staðhæfingum John McCain, sem sækist eftir að verða forsetaefni bandarískra repúblíkana, þess efnis að Kúbumenn hafi pyntað bandaríska herfanga Norðanmanna í Víetnamstríðinu. McCain svarar því til að það sé fyrir neðan sína virðingu að munnhöggvast við einn versta harðstjóra heims. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

 

McCain, sem var sjálfur í haldi Norðanmanna í Víetnam í fimm ár  hélt því fyrst fram í æviminningum sínum að Kúbumenn hefðu komið að pyntingum bandarískra fanga. Hann endurtók síðan þær staðhæfingar sínar í kosningaræðu sem hann hélt á meðal kúbanskra útlaga í Flórída í síðustu viku.

„Það er maður sem ég vil að þið hjálpið mér við að finna þegar Kúba verður frjáls,” sagði hann. „Það er Kúbumaðurinn sem kom inn í herbúðirnar  í Norður-Víetnam og pyntaði og drap vini mína. Við munum finna hann og draga hann til ábyrgðar.”

 „Ásakanir hans á hendur alþjóðlegum kúbönskum byltingarmönnum eru algerlega siðlausar,” segir í grein Kastró sem birt var í blaðinu Granma í gær. „Leyfðu mér að minna þig á það herra McCain að boðorð þeirrar trúar sem þú játar banna lygar.”
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka