Líkt við Nürnbergréttarhöldin

Bandaríkjastjórn segir réttarhöldin vegna hryðjuverkanna 11. september hliðstæð réttarhöldunum í Nürnberg yfir þýskum stríðsglæpamönnum eftir síðari heimsstyrjöld, og því sé réttlætanlegt að krefjast dauðadóms yfir sakborningunum sex.

Bandarískir diplómatar um allan heim fengu í gær fyrirmæli frá stjórnvöldum í Washington um að gefa þessa skýringu, biðji erlendar ríkisstjórnir eða fjölmiðlar um skýringu á lagalegum forsendum þess að dauðarefsingar hefur verið krafist yfir sex mönnum sem voru í haldi í Guantanamobúðunum.

Í plagginu sem sent var til bandarískra sendiráða segir, að dauðarefsing fyrir gróf brot á lögum um hernað sé viðurkennd á alþjóðavettvangi, og bent á herdómstólinn í Nürnberg sem dæmi. Þar voru 12 nánustu aðstoðarmenn Adolfs Hitlers dæmdir til dauða, þótt ekki hefðu þeir allir verið teknir af lífi.

Fangarnir sex í Guantanamo eru sakaðir um morð og stríðsglæpi í tengslum við 11. september, þegar um þrjú þúsund manns létu lífið. Þýskir nasistar stóðu að morðum á um sex milljónum manna.

Í plagginu sem sent var í gær er umfangi þessara glæpa ekki líkt saman, en öll tvímæli tekin af um að Bandaríkjastjórn líti á Nürnbergréttarhöldin sem sögulegt fordæmi fyrir því að krefjast dauðadóms fyrir Guantanamoföngunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka