Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, sagði í dag að hann væri fullviss um að Íranar væru að smíða kjarnorkuvopn með leynd.
„Við erum þeirrar skoðunar að Íranar haldi áfram að með þá áætlun sína að koma sér upp óhefðbundnum vopnum,“ sagði Olmert á sameiginlegum blaðamannafundi ásamt Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í dag.
„Það hefur ekkert gerst til þess að breyta skoðun okkar á málinu,“ sagði hann.
Forsætisráðherra sagði jafnframt að Ísraelar deili upplýsingum með fleiri löndum varðandi kjarnorkuáætlun Írana. Þá bætti hann við að menn megi ekki útiloka neitt svo koma megi í veg fyrir að Íranar komi sér upp kjarnorkuvopnum, að því er fram kemur á fréttavef Reuters.
„Líkt og Bush forseti (Bandaríkjanna) sagði eitt sinn: „Ekkert er útilokað,““ sagði Olmert.