Lögregla í Árósum í Danmörku handtók í morgun hóp manna sem taldir eru hafa verið að undirbúa morðtilræði við danska teiknarann Kurt Westergaard en hann er einn þeirra sem teiknuðu hinar umdeildu Múhameðsteikningar fyrir dagblaðið Jyllands-Posten. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Samkvæmt upplýsingum Jakob Scharf, yfirmanns dönsku rannsóknarlögreglunnar, hefur lögregla lengi fylgst með mönnunum, sem eru múslímar.
„Þar sem lögreglan vildi ekki taka neina óþarfa áhættu var ákveðið að grípa snemma til aðgerða til að stöðva undirbúninginn og koma í veg fyrir að morðið verði framið,” segir hann. „Aðgerðir næturinnar voru því fyrst og fremst fyrirbyggjandi.” Þá segir hann bæði danska ríkisborgara og útlendinga hafa verið handtekna í aðgerðunum í nótt.
Kurt Westergaard er 72 ára og einn af tólf teiknurum sem teiknuðu umdeildar skopmyndir af Múhameð spámanni sem birtar voru í Jyllands-Posten þann 30. september árið 2005. Mynd hans sýnir spámanninn með sprengju í túrbaninum.
Westergaard og eiginkona hans hafa nú notið lögregluverndar í þrjú ár vegna málsins og hafa þau hvað eftir annað verið flutt á milli heimila. Kurt Westergaard, segist vissulega óttast um líf sitt en að hann finni þó nú orðið aðallega fyrir reiði og biturleika yfir því að starf hans skuli hafa verið misnotað af öfgamönnum. Þá segist hann gera ráð fyrir að þurfa að bera þann kross sem teikning hans sé það sem hann eigi eftir ólifað.