Reiði vegna teikningamáls í Danmörku

Forsvarsmenn danska blaðsins Berlingske Tidende hafa ákveðið að birta teikningu danska teiknarans Kurt Westergaards af Múhameð spámanni í tilefni af því að þrír menn voru handteknir í nótt sakaðir um að leggja á ráðin um að myrða Westergaard vegna teikningarinnar. Þá hafa forsvarsmenn Politiken ákveðið að endurbirta teikninguna. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

„Við verðum að senda þeim sem láta sér detta annað eins brjálæði í hug og það að ráðast á Kurt Westergaard skýr og óvéfengjanleg skilaboð um það í dönskum fjölmiðlum,” segir Lisbeth Knudsen, aðalfréttastjóri Berlingske Tidende. Þá segir hún að ákveðið hafi verið að birta myndina með fréttum af málinu.

„Tjáningarfrelsið getur átt samleið með tillitssemi og umburðarlyndi en það má aldrei þagga niður í því með ótta,” segir hún og bætir því við að þegar umræður um teikningamálið hafi staðið sem hæst hafi forsvarsmenn blaðsins ekki séð faglega ástæðu til að birta myndirnar.

„Politiken mun að sjálfsögðu, líkt og fjölmargir aðrir fjölmiðlar, birta hina umdeildu teikningu  Kurt Westergaards af Múhameð á morgun. Það sýnir að hryðjuverk eru ekki bara andstyggileg heldur einnig að þau eru tilgangslaus. Í frjálsu samfélagi getum við rætt hvernig ræða eigi málin en ekki hvort það eigi að ræða þau."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert