Þrír lögðu á ráðin um morð á teiknara

Mikil reiði ríkti í garð Dana á meðal múslíma vegna …
Mikil reiði ríkti í garð Dana á meðal múslíma vegna teikningamálsins. Reuters

Tveir menn frá Túnis og einn danskur ríkisborgari voru handteknir í aðgerðum dönsku rannsóknarlögreglunnar í Árósum í nótt en mennirnir eru sakaðir um að hafa verið að undirbúa morðtilræði við danska teiknarann Kurt Westergaard. Gert er ráð fyrir að Túnismönnunum verði vísað úr landi en að Dananum verði sleppt að loknum yfirheyrslum. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten. 

Jacob Scharf, yfirmaður rannsóknarlögreglunnar PET segir að Daninn sé fertugur maður af marokkóskum uppruna. Þá segir hann að alltaf hafi legið fyrir að manninum yrði sleppt að loknum yfirheyrslum og að ekki verði farið fram á gæsluvarðhaldsúrskurð yfir honum nema nýjar upplýsingar komi fram sem réttlæti það.

„Ég get staðfest að aðgerðin sem framkvæmd var aðfararmótt 12. febrúar var gerð með það að markmiði að koma í veg fyrir framkvæmd skipulagðs morðtilræðis við  einn af teiknurunum sem teiknuðu Múhameðsteikningarnar sem birtar voru í Jyllands Posten þann 30. september 2005,” segir hann.

Teiknarinn Kurt Westergaard og eiginkona hans Gitte hafa undanfarna þrjá mánuði verið undir strangri lögregluvernd og þurft að flytja hvað eftir annað á milli heimila.

Teikning Kurt Westergaards sýnir Múhameð spámann með sprengju í túrbani sínum og þykir hún hvað mest móðgandi af teikningunum tólf sem birtar voru. Hann segir það ekki hafa verið ætlun sína að gefa í skyn að Múhameð hafi verið hryðjuverkamaður heldur að benda á að íslam sé nýtt af öfgamönnum til að réttlæta hryðjuverk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert