Unglingafæla fordæmd

Umboðsmaður barna á Bretlandi hefur hafið baráttu sem miðast að því að banna hátíðnisenda sem senda út skerandi hljóð sem einungis fólk yngra en tvítugt heyrir. Tækin eru seld til verslunareigenda sem vilja fæla krakka- og unglingagengi frá verslunum og öðrum svæðum.

Tækið nefnist Mosquito en Al Aynsley-Green sem er umboðsmaður barna segir það vera álímda skyndilausn sem taki ekki á rótum vandans fyrir utan að greina ekki á milli vandræðaunglinga og vel uppöldum góðmennum í þessum aldursflokki.

Um 3500 Mosquito-tæki munu vera í notkun og þau ráða að sögn Aynsley-Green ekki bót á því þjóðfélagsmeini sem þeim er beint gegn.
„Ég hef áhyggjur af því kynslóðabili sem ég sé að er að myndast, ótti, umburðarleysi og jafnvel hatur eldri kynslóða í garð ungu kynslóðarinnar," hafði AP fréttastofan eftir honum.

„Ímyndið ykkur viðbrögðin ef sett væri á markað tæki sem kynni að valda öllum af ákveðnum kynþætti eða kyni óþægindum fremur en börnunum okkar," sagði Shami Chakrabarti forstjóri Liberty, mannréttindasamtaka.
Framleiðandi tækisins, Howard Stapelton, spyr á móti um mannréttindi verslunareigenda sem þurfa að þola ónæði og horfa á eftir viðskiptavinum vegna óláta í unglingagengjum.

Stapelton segist gjarnan vilja láta útbúa samning sem kaupendur tækisins þyrftu að skrifa undir sem myndi ákvarða hvernig og við hvaða aðstæður mætti nota tækið.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert