Einn illræmdasti hryðjuverkamaður heims

Imad Mughniyeh
Imad Mughniyeh AP

Imad Mughniyeh, einn af leiðtogum Hizbollah samtakanna sem ráðinn var af dögum í sprengjutilræði í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, í morgun, var efsti maður á lista Ísraela yfir eftirlýsta hryðjuverkamenn. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Hann var einnig ofarlega á lista bandarískra yfirvalda yfir eftirlýsta menn og hafði farið hulu höfði árum saman. Þá hafði hann gengist undir nokkrar skurðaðgerðir til að breyta ásjónu sinni.

Mughniyeh, er sagður hafa talið sig líklegan arftaka Hassan Nasrallah, æðsta leiðtoga Hizbollah samtakanna, en hann er m.a. talinn hafa verið einn af höfuðpaurum fjölmargra rána á Vesturlandabúum í landinu á níunda áratug síðustu aldar. Þá var hann talinn hafa staðið á bak við flugrán flugvélar TWA flugfélagsins árið 1985.  

Ísraelska leyniþjónustan Mossad mun hafa gert nokkrar tilraunir til að ráða hann af dögum undir lok síðustu aldar og í einu slíku tilræði lét bróðir hans lífið.    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert