„Kaldrifjaður morðingi“

„Heimurinn er betur kominn án þessa manns,“ sagði talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins í dag um fall æðsta leiðtoga Hezbollah-skæruliðasamtakanna, sem var ráðinn af dögum í Damaskus í gærkvöldi.

„Hann var kaldrifjaður morðingi, fjöldamorðingi og hryðjuverkamaður sem bar ábyrgð á dauða ótal saklausra manna,“ sagði talsmaðurinn, Sean McCormack, á blaðamannafundi.

Sjónvarpsstöð Hezbolla greindi frá falli mannsins, Imad Mughnieh, í morgun. Fullyrt var að Ísraelar hefðu staðið að morðinu á honum, en því hafa Ísraelar neitað. Ísraelska leyniþjónustan hafði þó ítrekað reynt að ráða Mughnieh af dögum.

Vestrænar leyniþjónustur höfðu hann grunaðan um að vera á mála hjá írönsku leyniþjónustunni, og hann var eftirlýstur af bandaríska varnarmálaráðuneytinu.

Hann er talinn hafa átt hlut að máli þegar sprengja sprakk í sendiráði Ísraels í Buenos Aires 1992, þegar 29 manns létust, og einnig í árás á svefnskála bandarískra hermanna á Beirútflugvelli 1983, þegar 241 bandarískur hermaður dó.

Imad Mughnieh.
Imad Mughnieh. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert