Líkur taldar á mótmælum múslíma

Mikil reiði greip um sig meðal múslíma fyrir tveimur árum …
Mikil reiði greip um sig meðal múslíma fyrir tveimur árum þegar dönsku teikningarnar af Múhameð spámanni voru fyrst birtar. Reuters

Mikil reiði ríkir nú meðal múslíma víða um heim eftir að ellefu blöð í Danmörku birtu skopmynd af Múhameð spámanni í kjölfar þess að upp komst um áform þriggja manna um að ráða höfund myndarinnar af dögum. Greint er frá myndbirtingunum á fréttavefjum sjónvarpsstöðvarinnar Al-Jazeera og arabíska blaðsins Al-Hayat, í dag. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands Posten. 

Syaiful Bahri Anshori, talsmaður fimmtíu milljóna múslíma á Indónesíu  segir í viðtali sem birt er á norsku vefsíðunni aftenposten.no að múslímum finnist algerlega óskiljanlegt að Danir skuli hafa ákveðið að birta myndina að nýju. „Ber þetta fólk enga virðingu fyrir íslam,” spyr Anshori sem situr í stjórn samtakanna Nahdlatul Ulama (NU), stærstu samtaka múslíma í Indónesíu.

„Samtök okkar trúa ekki á ofbeldi og við tökum ekki þátt í mótmælaaðgerðum þar sem mótmælt er með ofbeldisfullum hætti og þjóðfánar eru brenndir,” segir hann. „Við sjáum hins vegar að önnur samtök fara þá leið og ég tel fullvíst að við eigum eftir að sjá slíkar aðgerðir annars staðar. "

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert