Dönsku samtökin Islamisk Trossamfund hafa varað við því að sú ákvörðun danskra yfirvalda að vísa tveimur Túnismönnum úr landi eftir að upp komst um áform þeirra um að ráða teiknarann Kurt Westergaards af dögum geti leit til ofbeldisaðgerða í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Talsmenn samtakanna segja það valda sér miklum áhyggjum að ekki þurfi meira til en samþykki dómsmálaráðherra og ráðherra innflytjendamála til að vísa mönnum, sem ekki eru danskir ríkisborgarar, úr landi í Danmörku.„Nýtt tímabil er hafið í Danmörku. Dómarar dómskerfisins og þar með dómsvaldið er gert ógilt með hinum svokölluðu hryðjuverkalögum og það sem veldur enn meiri áhyggjum er það að þetta er gert undir því yfirskini að þetta sé gert til að berjast gegn öfgahyggju,” segir í yfirlýsingu samtakanna.
Þá segir að samtökin hafi lagt mikla vinnu í það fyrir tveimur árum að ná stjórn á því ástandi sem skapaðist vegna reiði múslíma vegna Múhameðsteikninga Jyllands-Posten og að forsvarsmenn samtakanna óttist að reiðin muni gjósa upp að nýju í kjölfar þessa máls. Þá segir að samtökin séu ekki mótfallin tjáningarfrelsi. Þau séu hins vegar mjög mótfallin þeirri kúgun sem múslímski minnihlutinn búi við í Danmörku.