Ellefu dönsk dagblöð birtu í dag skopmyndir af Múhameð spámanni sem ollu miklu fjaðrafoki og reiði meðal múslíma fyrir tveimur árum. Með þessu segjast ritstjórarnir vilja standa vörð um tjáningarfrelsið.
Danska lögreglan kom í gær í veg fyrir fyrirætlanir öfgamanna sem hugðust myrða einn af skopmyndateiknurunum.
Stærstu dagblöð landsins, þ.á.m. Jótlandspósturinn og Berlingske Tidende, og eru á á meðal þeirra blaða sem birta myndirnar í dag.
Sú mynd sem fór einna mest fyrir brjóstið á múslímum var skopmynd af Múhameð sem var með sprengju í vefjarhetti sínum.
Myndin er ein af 12 skopmyndum sem voru birtar í Jótlandspóstinum í september árið 2005. Margir múslímar litu á myndirnar sem alvarlega móðgun gagnvart þeirra trú. Í kjölfarið brutust út hörð mótmæli í fjölmörgum múslímaríkjum í janúar og febrúar árið 2006.
Í gær handtók danska lögregla þrjá menn sem eru grunaðir um að hafa ætlað að myrða skopmyndateiknarann Kurt Westergaard, sem teiknaði myndina af Múhameð með sprengjutúrbaninn. Einn hinna handteknu er Dani sem á rætur að rekja til Marokkó en hinir mennirnir tveir eru frá Túnis.