Starfsfólk ljósvakamiðla í verkfalli

Nicolas Sarkozy
Nicolas Sarkozy VINCENT KESSLER

Starfsfólk franskra sjónvarps- og útvarpsstöðva í eigu ríkisins gengu út í dag í mótmælaskyni við ákvörðun forseta landsins, Nicolas Sarkozy, að leggja bann við auglýsingum í dagskrá stöðvanna.

Sarkozy kom ýmsum á óvart í síðasta mánuði er hann greindi frá því að hann hygðist leggja bann á birtingu auglýsinga í opinberum ljósvakamiðlum. Með þessu vildi hann tryggja gæði þess efnis sem væri útvarpað og sjónvarpað. Sagði Sarkozy að stöðvarnar gætu fjármagnað sig með sköttum sem renna til ríkisins vegna auglýsingatekna frjálsu ljósvakamiðlanna. Auk þess sem skattur yrði lagður á net- og farsímanotendur.

Það voru því þættir eins og Vinir sem voru sýndir í stað fréttatengds efnis í frönsku sjónvarpsstöðvunum í dag. Í útvarpi hljómaði einungis tónlist og skilaboð þar sem ástæða verkfallsins var útskýrð.

Menningarmálaráðherra Frakklands,  Christine Albanel, sagði í viðtali við LCI sjónvarpsstöðina að auglýsingatekjur ljósvakamiðla í ríkiseigu næmu 700-800 milljónum evra á ári og að stjórnvöld myndu finna leið til þess að ljósvakamiðlarnir fengju stuðning á móti við það að missa þennan spón úr aski sínum.

Andstæðingar Sarkozy segja að með þessu vilji forsetinn styðja við bakið á ljósvakamiðlum í einkaeigu og benda á að vinur forsetans, Martin Bouygues, sé stór hluthafi í einkastöðinni TF1.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert