Deilt um dönsk hryðjuverkalög

Teiknarinn Kurt Westergaard. Þrír menn voru handteknir í vikunni fyrir …
Teiknarinn Kurt Westergaard. Þrír menn voru handteknir í vikunni fyrir að ætla að myrða Westergaard í líkamrsæktarstöð. Reuters

Tveir menn sem grunaðir eru um að hafa ætlað að myrða danska teiknarann Kurt Westergaard segjast ætla að áfrýja ákvörðun danska dómsmálaráðuneytisins um að senda þá úr landi.

Mennirnir tveir sem um ræðir eru báðir frá Túnis, en þeir hafa báðir búið í Danmörku í meira en sjö ár. Þeir voru handteknir sl. þriðjudag í aðgerðum lögreglu, grunaðir um að hafa ætlað að myrða Westergaard, sem teiknaði mjög umdeilda mynd af spámanninum Múhameð.

Annar mannanna, sem er 36 ára gamall og giftur danskri konu, sagði dómara í dag að hann væri „ekki hryðjuverkamaður heldur hófsamur múslimi". Mennirnir tveir segjast báðir óttast pyntingar ef þeir verða sendir aftur til Túnis.

Málið hefur vakið umræðu í Danmörku um lög um hryðjuverk sem sett voru árið 2002 og þykir mörgum of langt gengið að vísa mönnum úr landi án þess að fá fjallað um mál sín fyrir dómstólum.

Þriðji maðurinn sem handtekinn var er danskur ríkisborgari af marokkóskum ættum, en hann var látinn laus að loknum yfirheyrslum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert