Kaupmannahafnarbúar í hverfum þar sem kveiktir voru eldar í nótt hafa verið varaðir við áframhaldandi ólátum í nótt. Hafa íbúar í hverfum á Norðurbrú verið hvattir til að læsa hurðum og hliðum sem liggja að götum, fjarlægja reiðhjól sín og leggja bílum annars staðar.
Kveikt var í 14 bílum víða um Kaupmannahöfn í nótt og blossuðu upp átök á nokkrum stöðum. Sautján unglingar voru handteknir á Norðurbrú og Vesturbrú í Kaupmannahöfn fyrir að kveikja í bílum og ruslagámum og fyrir óspektir á almannafæri. Í Árósum kom einnig til átaka.
Lögreglan hefur ekki tjáð sig um hvað vakti fyrir unglingunum en TV2 sagði í fréttatíma sínum að margir unglingar hafi sagt blaðamönnum að endurútgáfan af skopmyndinni af Múhammeð spámanni hafi verið ástæðan.