Fjórir eru alvarlega særðir eftir skotárás við N-Illinois háskólann í DeKalb, skammt frá Chicago. Átján urðu fyrir skotum er árásarmaður hóf skothríð í fyrirlestrarsal með 140 nemendum. Á vefsíðu skólans segir að árásarmaðurinn hafi fallið fyrir eigin hendi.
Öllu skólahaldi við skólann hefur verið aflýst og hefur nemendum við skólann verið boðin áfallahjálp auk þess sem þeir hafa verið beðnir um að hringja í fjölskyldur sínar. Ekki liggur fyrir hvort árásarmaðurinn var nemandi við skólann.
Norður Illinois háskólinn er um hundrað kílómetrum frá Chicago í Illinois-ríki. Um 25.000 nemendur stunda nám við hann.