Ungmenni kveiktu í skóla og voru með óspektir í Kaupmannahöfn og víða í Danmörku í gærkvöldi og nótt. Mikill eldur kom upp í Værebro-skóla í Bagsværd í Kaupmannahöfn og segir lögreglan að um íkveikju sé að ræða.
Óróleika gætti samkvæmt Berlingske Tidende í mörgum bæjum á Sjálandi og kveikt var í bílum og ruslagámum í Slagelse, Ringsted og Greve-Hundige sem og í Kaupmannahöfn, Árósum og fleiri bæjum.
Mörg ungmennanna eru börn innflytjenda og er talið að óspektirnar megi rekja til birtingar á skopmyndum af spámanninum Múhameð í dönskum blöðum í gær.